Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 (útgerðarfélag III).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [Y hf.] f.h. [X ], dags. 20. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B] að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 17. janúar 2018, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 18. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 í byggðarlögum Ísafjarðarbæjar, m.a. á Ísafirði í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 2. febrúar 2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 1.133 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar sem skiptust á byggðarlögin Hnífsdal, 222 þorskígildistonn, Þingeyri, 281 þorskígildistonn, Flateyri, 300 þorskígildistonn, Suðureyri, 192 þorskígildistonn og Ísafjörð, 140 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 21. nóvember 2017.

Með umsókn, dags. 1. febrúar 2018, sem barst Fiskistofu 19. sama mánaðar, sótti kærandi, um úthlutun byggðakvóta til bátsins [B].

Hinn 9. febrúar 2018 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Ísafirði í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 22. febrúar 2018, að hafnað væri umsókn hans um úthlutun byggðakvóta til bátsins [B]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018, komi fram að Fiskistofa annist úthlutun aflamarks, sem komi í hlut einstakra byggðarlaga til fiskiskipa og að umsóknarfrestur skuli vera tvær vikur. Umsókn kæranda hafi borist að liðnum umsóknarfresti. Með vísan til ofanritaðs var umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta hafnað.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu um höfnun umsóknar um úthlutun byggðakvóta til bátsins [B].

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [Y hf.] f.h. [X] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B]

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærð sé úthlutun byggðakvóta Ísafjarðar í Ísafjarðarbæ þar sem ekki hafi verið úthlutað byggðakvóta til bátsins [B]. [Y hf.] og útgerðarmaðurinn hafi útbúið umsókn og vinnslusamning þann 1. febrúar 2018 og sent til undirritunar hjá Ísafjarðarbæ. Um hafi verið að ræða sama fyrirkomulag og á öðrum samningum sem gerðir hafi verið við aðra umsækjendur. Ísafjarðarbær hafi síðan sent umsóknina og samninginn til Fiskistofu. Af einhverjum ástæðum hafi þessi umsókn og samningur ekki verið send áfram og því hafi umsóknin ekki borist innan tilskilins frests. Hver ástæða þess er sé ekki ljóst en alveg ljóst að ástæðan fyrir þessu liggi hjá Ísafjarðarbæ en ekki hjá útgerðarmanninum. Því sé kærð úthlutun byggðakvóta Ísafjarðarbæjar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 og óskað eftir að umsóknin verði tekin til meðferðar þrátt fyrir framanritað. Það geti haft veruleg áhrif á afkomu þessarar útgerðar ef fari sem horfi. Málið sé alvarlegt gagnvart viðkomandi útgerðarmanni, þar sem hann hafi í góðri trú sent sína umsókn með tilstilli [Y hf.] og sveitarfélagsins.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 11. júní 2018, sem barst ráðuneytinu 13. sama mánaðar, segir að samkvæmt umsókn um byggðakvóta, dags. 1. febrúar 2018, hafi [X] sótt um úthlutun af byggðakvóta Ísafjarðar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 vegna skipsins [B]. Þann 22. febrúar 2018 hafi umsókninni verið hafnað þar sem umsóknin hafi ekki borist fyrr en 19. febrúar 2018 eða löngu eftir að umsóknarfresti var lokið. Í meðfylgjandi tölvubréfi sem sent hafi verið 19. febrúar 2018 frá starfsmanni Ísafjarðarbæjar sé þetta staðfest og virðist því lýst yfir að ástæða þess að umsókn hafi ekki borist liggi hjá Ísafjarðarbæ. Fiskistofa hafi auglýst eftir umsóknum þann 17. janúar 2018 með umsóknarfresti til 2. febrúar 2018 en ekki hafi borist umsókn frá kæranda fyrir þann tímafrest. Breyti það engu um aðkomu Ísafjarðarbæjar að umsóknarferli. Um framangreint sé vísað til 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018. 2) Umsókn kæranda, dags. 1. febrúar 2018, auk samnings um vinnslu afla, dags. 1. febrúar 2018. 3) Auglýsing Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta, dags. 17. janúar 2018. 4) Tölvubréf frá Fiskistofu, dags. 25. janúar 2018. 5) Tölvubréf frá starfsmanni Ísafjarðarbæjar, dags. 19. febrúar 2018.

Með bréfi, dags. 19. júní 2018, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda, [X], og [Y hf.] og veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 3. júlí 2018.

Með tölvubréfi, dags. 25. júní 2018, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá [Y hf.]. Þar segir m.a. að engar athugasemdir séu gerðar við umsögn Fiskistofu sem slíka. Þó sé áréttað að til þess að komið geti til úthlutunar byggðakvóta verði að liggja fyrir samþykki Ísafjarðarbæjar vegna vinnslusamnings. Kærandi hafi sannanlega sent umsókn sína með undirrituðum vinnslusamningi til Ísafjarðarbæjar, þar hafi samningurinn stöðvast og ekkert sem umsækjandi hafi getað gert í því. Það beri að líta til þess við afgreiðslu málsins. Það séu miklir hagsmunir umsækjanda í húfi.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda, [X], við framangreinda umsögn Fiskistofu.

  

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Í 8. mgr. greinarinnar er Fiskistofu falið að annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra fiskiskipa.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018.

Einnig hafa verið sett sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ, m.a. á Ísafirði fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (II) nr. 17/2018, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Ísafirði í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017 og auglýsingu (II) nr. 17/2018.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018, kemur fram að Fiskistofa annist úthlutun aflamarks, sem kemur í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa og skuli auglýsa eftir umsóknum útgerða í a.m.k. tveimur dagblöðum og á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is. Í umsóknum skulu koma fram upplýsingar sem Fiskistofa ákveður og skal umsóknum skilað á því formi sem stofnunin ákveður. Einnig kemur þar fram að umsóknarfrestur skuli vera tvær vikur. Þá kemur þar fram að Fiskistofa annist mat og úrvinnslu umsókna og skuli svara öllum umsóknum svo fljótt sem unnt er.

Fiskistofa auglýsti eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta á Ísafirði í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 með auglýsingu, dags. 17. janúar 2018, en umsóknarfrestur samkvæmt auglýsingunni var tvær vikur eða til og með 2. febrúar 2018, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017. Kærandi sótti um byggðakvóta með umsókn til Fiskistofu sem barst stofnuninni 19. febrúar 2018. Fiskistofu hafði því ekki borist umsókn um úthlutun byggðakvóta til bátsins [B] að umsóknarfresti liðnum en samkvæmt því voru ekki skilyrði fyrir úthlutun af byggðakvóta Ísafjarðar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B]. Það hefur ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls hvort umsóknina hafi átt að senda frá kæranda eða Ísafjarðarbæ.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B] en samkvæmt því verður ákvörðunin staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda, [X], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B].

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum